Sigurður Arent

Sigurður Arent  útskrifaðist frá Royal Scottish Conservatory árið 2010 eftir fjögurra ára nám til BA Honours gráðu í Contemporary Performance Practice, sem útleggja mætti á íslensku sem samtímasviðslistafræði. Námið er fjölbreytt en ásamt því að læra að koma fram og leikstýra snerist stór hluti námsins um hvernig hægt sé að nota leiklist í kennslu, þá bæði sem kennslutól fyrir leiðbeinendur og námsmiðil fyrir nemendur. Í menntaskóla fór hann með burðarhlutverk í tveimur uppfærslum leikfélags Herranætur og síðar í tveimur uppfærslum hjá Stúdentaleikhúsinu þar sem hann sat einnig í stjórn. Árið 2004 fór hann hringinn í kringum landið með leikhópnum Landsleik og sýndi kolsvörtu finnsku kómedíuna Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð. Frá útskrift hefur Sigurður mestmegnis unnið erlendis, nú síðast sem leikari í tónlistar-leikverkinu Tag der hellen Zukunft sem sýnt var á nokkrum stöðum í Sviss. Þá er hann einn af stofnendum sviðslistahátíðarinnar artFart og kom að skipulagningu hennar frá 2006-2010. Eftir að komið var heim frá Glasgow hefur hann einnig starfað sem stuðningsfulltrúi í tómstundastarfi Hins Hússins fyrir fötluð ungmenni og lesið inn á hljóðbækur fyrir Skólavefinn. Í dag er Sigurður hluti af listahópnum Við og við sem beinir sjónum sínum að samfélagslegum málefnum en næst munu þau vinna með innflytjendum og farandlaunþegum að sýningu um þeirra upplifun af Íslandi og hvert öðru.