Sólveig Guðmundsdóttir

Sólveig Guðmundsdóttir lærði leiklist við The Arts Educational School í London og útskrifaðist árið 2002. Hún er ein af stofnendum Kvenfélagsins Garps og hefur unnið við fjölda leiksýninga m.a. Meistarinn og Margarita, Örlagaeggin, Kaktusmjólk, In Transit, Riddarar hringborðsins – með veskið að vopni. Sólveig lék Dís í Gunnlaðar sögu og Unu í Svörtum fugli og nú síðast trúðinn Rebekku í Bláa gullinu. Hún hefur einnig farið með hlutverk í kvikmyndunum Blóðbönd, Köld slóð og Brim. Þá var hún aðstoðarleikstjóri Rafaels Bianciotto við Dauðasyndirnar – guðdómlegur gleðileikur í Borgarleikhúsinu og við Þrettándakvöld eftir Shakespeare í Þjóðleikhúsinu.

Sólveig hefur starfað sem leiklistarkennari hjá Leynileikhúsinu í nokkur ár ásamt því að kenna við Listaskóla Barna í Reykjanesbæ sl. sumur. Þá er Sólveig hluti af GRAL – leikhópnum og leikur Jórunni í Horn á höfði, barnaleiksýningu ársins 2010 sem verður sýnt í Borgarleikkhúsinu í vetur.