Sumarliði V. Snæland Ingimarsson

Sumarliði V Snæland Ingimarsson lauk leiklistarnámi við Rose Bruford College í London í maí 2011 með BA gráðu á braut sem kallast American Theatre Arts, en þar var lögð aðaláhersla á leiklistina sem hefur þróast í nýja heiminum, Bandaríkjunum. Leiklist í Bandaríkjunum hefur skapað sér eigin sess í leikhúsflóru heimsins, en þar á meðal eru ótal heimsfræg leikskáld, Meisner- og Method-leiktækni, ótal leiklistarstefnur, vaudeville-sýningar og að sjálfsögðu söngleikurinn. Á sínu öðru ári fór hann í skiptinám til Texas þar sem hann kynntist Bandarískri menningu og leiklist af eigin raun.

Áður hefur hann einnig lokið diplómunámi í leiklist frá Nordiska Folkhögskolan í Kungälv í Svíþjóð. Einnig hefur hann lokið grunnstigi í söng og lært trúðleik, að gleypa eld, stultugang, ásamt öðrum sirkuslistum.
Reynsla Sumarliða er fjölbreytt. Hann hefur kennt hjá Leynileikhúsinu síðan í júní 2011 og svo lék hann með Leikhópnum Lottu í Mjallhvíti og Dvergunum Sjö sama sumar. Hann hefur leikið í stuttmyndum, ferðast um landið í leikhópnum Íslandsleikhús undir stjórn Margrétar Eir Hjartardóttur og komið fram í ótal sýningum frá unga aldri.

Þessa dagana leikur hann í einleiknum Let’s Talk Iceland, gamanleik sérhönnuðum fyrir erlenda ferðamenn á Víkingakránni í Reykjavík.