SUMARYLUR

Nú er önnur vika sumarnámskeiðanna hálfnuð og mikið búið að bralla í Leynileikhúsinu.

Eftir virkilega skemmtilega og skapandi samveru í síðustu viku sýndu tveir flottir hópar frábærar sýningar á stóra sviði Tjarnarbíós. Þar gaf að líta stutt leikrit sem börnin höfðu sjálf samið, leiki sem þau höfðu lært í vikunni og dansa sem hóparnir sömdu saman á námskeiðinu. Afskaplega kátir og stoltir leikarar héldu heim á leið með nýja reynslu í farteskinu og Leynileikhúsið þakkar fyrir alla leikgleðina og opnu hjörtun! (Myndir koma inn á vefinn fljótlega!)

Þessa vikuna halda aðrir skapandi og fjörugir hópar uppi stemmningunni, annars vegar 7-10 ára og hins vegar unglingahópur. Báðir hópar eru á fullu að búa til efni fyrir sýningu og læra eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi. Við höfum prófað að gera leiklist úti undir berum himni (þegar það kom loksins sól!), á stóra sviðinu og svo í hinum ýmsu herbergjum og göngum hér í húsinu. Það kennir sko ýmissa grasa í Tjarnarbíói og alls staðar hægt að skapa – hugmyndirnar eru endalausar.

Við hlökkum til að sýna aðstandendum hópanna afraksturinn.