Leiklistarnámskeið; vor, sumar og haust.

Með LEIKGLEÐI og frumsköpun að leiðarljósi er farið í gegnum grunnatriði leiklistar og sköpunar á öllum leiklistarnámskeiðum Leynileikhússins. Unnið er sérstaklega með hlustun, samvinnu, einbeitingu og tjáningu í gegnum leiki, æfingar og spuna. Leitast er við að leiðbeina þátttakendum við að finna hugmyndum sínum farveg og byggja þannig upp sjálfstraust þeirra og framkomu.

Á námskeiðinu vinna þátttakendur spunaleikrit út frá eigin hugmyndum, í samvinnu við kennara sína, sem þeir sýna í lok námskeiðs.

Einkunnarorð Leynileikhússins eru: sköpunarkraftur, spuni og leikgleði.

Eftir hverja önn hafa aðstandendur ótal barna haft samband við Leynileikhúsið og sagt frá auknu sjálfstrausti barna sinna eftir leiklistarnámskeið Leynileikhússins enda eykur leiklist samskiptahæfni og sköpunarkraft.

Allir kennarar Leynileikhússins eru með háskólamenntun í leiklist og hafa góða reynslu af leiklistarkennslu og vinnu með börnum.

 

SUMARNÁMSKEIÐ:

Um er að ræða viku löng námskeið og kennt er 3-4 tíma á dag. Á námskeiðunum er að venju unnið með skapandi aðferðir, ímyndunarafl nemenda, spuna, persónusköpun og samvinnu. Námskeiðin eru færð út á græn svæði eins mikið og veður leyfir. Í lok hvers námskeið er opinn tími þar sem aðstandendum gefst tækifæri til að líta afrakstur vikunnar og fá innsýn í starf Leynileikhússins.

 

VOR- OG HAUSTNÁMSKEIÐ: 

ALMENN NÁMSKEIÐ:

Kennt er einu sinni í viku í 1 klst í senn. Fyrstu 10 tímarnir eru kenndir á kennslustöðum skólanna, en 11. og 12.tími fara fram í leikhúsi þar sem önnin endar með frumsaminni leiksýningu. Ungu leikararnir fá búning og leikhúsmálningu og aðstandendur geta komið og séð börnin leika leikþætti og blómstra á alvöru leiksviði.

Þegar líða tekur á námskeiðið eru grunnatriðin sem lögð hafa verið inn í fyrri hluta námskeiðs, færð yfir í spunavinnu sem á endanum skilar sér í lokasýningu sem nemendur sýna fyrir aðstandendur. Lokasýningin er því byggð alfarið upp á spuna og sköpunarkrafti nemenda sem kennari aðstoðar við að púsla saman í leikverk þar sem allir fá að njóta sín á sinn hátt.

GRUNNNÁMSKEIÐ:

Kennt er einu sinni í viku í 1 klst í senn á kennslustöðum skólanna. Í lokatímanum (11.tíma) er opinn tími þar sem aðstandendum gefst færi á að taka þátt í starfinu og sjá ungu leikarana blómstra og leika stutta leikþætti sem þeir hafa undirbúið.

Unnið er með spuna, hlutverkaleiki, rödd, hreyfingu, einbeitingu og samskiptatækni alla önnina í gegnum leiki og leiklistaræfingar.

UNGLINGANÁMSKEIÐ:

Kennt er einu sinni í viku í 80 mín. í senn. Fyrstu 10 tímarnir eru kenndir á kennslustöðum skólanna, en 11. og 12.tími fara fram í leikhúsi þar sem önnin endar með frumsaminni leiksýningu.

Ungu leikararnir fá leggja línurnar varðandi sýninguna og hanna umgjörð hennar sjálf, hvað varðar leikmynd, búninga og leikhúsmálningu o.s.fr. Aðstandendur geta komið og séð leynileikarana leika leikþætti og horfa á búta af kvikmyndum sem fléttaðir eru inn í leikverkin og blómstra á alvöru leiksviði í loka annar innar.

Þegar líða tekur á námskeiðið eru grunnatriðin sem lögð hafa verið inn í fyrri hluta námskeiðs ásamt fleiri leikstílum og uppbrotum á sviðslistaforminu, færð yfir í spunavinnu sem á endanum skilar sér í lokasýningu sem nemendur sýna fyrir aðstandendur. Um miðbik námskeiðsins ákveða nemendur þráð og efnistök lokaverkefnisins. Með þann þráð í huga er unnið með kvikmyndaleikstjóra í einn til tvo tíma sem tekur upp senur með leikurunum og leikstýrir þeim í kvikmyndaleik. Þessar senur eru í flestum tilfellum hluti af lokasýningu hópanna.

Lokasýningin er því byggð alfarið upp á spuna og sköpunarkrafti nemenda sem kennari aðstoðar við að púsla saman í sviðlistaverk þar sem allir fá að njóta sín á sinn hátt.